Lífið

Stjörnurnar sakna Swayze

Patrick Swayze ásamt eiginkonu sinni, Lisu Niemi. Swayze er látinn eftir tæplega tveggja ára baráttu við krabbamein.fréttablaðið/ap
Patrick Swayze ásamt eiginkonu sinni, Lisu Niemi. Swayze er látinn eftir tæplega tveggja ára baráttu við krabbamein.fréttablaðið/ap

Leikarinn Patrick Swayze er látinn, 57 ára gamall, eftir tæplega tveggja ára baráttu við krabbamein í brisi.

Eftir að Swayze greindist með krabbameinið lék hann í sjónvarpsþáttunum The Beast og barðist hetjulega við sjúkdóminn allt þar til yfir lauk. Hann hafði einnig í hyggju að rita endurminningar sínar ásamt eiginkonu sinni.

„Patrick var sjaldgæf og falleg blanda af ekta karlmennsku og miklum þokka,“ sagði Jennifer Grey, sem lék á móti Swayze í Dirty Dancing. Rob Lowe lék á móti honum í mörgum myndum: „Patrick lifði þúsund líf á einni ævi. Hann var afburða dansari, samdi vinsæl lög, lék í vinsælum myndum og var ótrúlegur knapi. En ég mun helst minnast hans fyrir ótrúlegt ástarsamband hans við konu sína Lisu.“ Demi Moore lék á móti Swayze í myndinni Ghost: „Patrick, gríðarlega margir elska þig og ljós þitt mun lýsa áfram í lífi okkar allra. Ég elska þig og sakna þín.“

Auk þess að slá í gegn í Dirty Dancing og Ghost, sem komu út 1987 og 1990, lék Swayze í myndum á borð við Point Break og Road House. Á þessum tíma var hann talinn einn helsti hjartaknúsarinn í Hollywood en síðasta áratuginn fór að halla undan fæti hjá honum og hafði hann úr færri góðum hlutverkum að moða en áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.