Innlent

Fallið frá skerðingu barnabóta og vaxtabætur hækkaðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Páll Árnason er félagsmálaráðherra. Mynd/ Vilhelm.
Árni Páll Árnason er félagsmálaráðherra. Mynd/ Vilhelm.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að falla frá áformum um skerðingu á barnabótum. Því verður sama upphæð til ráðstöfunar og var árið 2009 til að greiða út bætur. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem dreift var á Alþingi í gær fyrir aðra umræðu, er gert ráð fyrir að þessum útjöldum veðri mætt með tekjum af nýju auðlegðargjaldi.

Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka greiðslur vaxtabóta á árinu 2010 með sama hætti og gert var á árinu 2009. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að hækkunin verði fjármögnuð með skattlagningu af útleystum séreignarsparnaði en á næsta ári er gert ráð fyrir að á móti hækkun vaxtabótanna komi tekjur af nýju auðlegðargjaldi. Þannig verði viðhaldið þeirri hækkun vaxtabóta sem ákveðin var á sumarþinginu.

Hins vegar er gert ráð fyrir að útgreiðslur vaxtabóta gætu aukist talsvert umfram forsendur í fjárlagafrumvarpinu að óbreyttu vegna lækkaðs eiginfjárhlutfalls íbúðareigenda, aukningar skulda og vaxtagreiðslna af þeim og vegna lægri launa. Því hefur verið gert ráð fyrir að reglum verði breytt til að sporna við frekari hækkun vaxtabóta, t.d. með því að hámark vaxtagjalda af eftirstöðvum skulda sem koma til bótaútreiknings verði lækkað. Verði ekki af þessum breytingum á vaxtabótakerfinu má gera ráð fyrir því að greiðslur vaxtabóta aukist um allt að tvo milljarða til viðbótar við það sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×