Innlent

Ætlar að opna nýja verslun á morgun

Jón Gerald Sullenberger.
Jón Gerald Sullenberger.
Kostur, ný lágvöruverslun Jóns Geralds Sullenberger mun að öllum líkindum opna í Kópavogi í fyrramálið. Unnið hefur verið allan sólarhringinn síðustu daga.

Kostur er til húsa að Dalvegi 10-14 og stefnir Jón Gerald að því að opna klukkan 11:00 í fyrramálið. Þar munu listamenn mæta og árita plötur sínar auk þess sem málning og blöðrur verða í boði fyrir börnin.

Jón segir verslunina fyrst og fremst vera lágvöruverslun. Þar verði áherslan lögð á lágt verð og mikið vöruúrval. Meðal annars verði boðið upp á nokkuð af nýjum vörum, sem ekki hafa verið á boðstólnum hér á landi.

Opnun búðarinnar hefur ekki gegnið þrautalaust fyrir sig. Ekki er langt síðan Jón Gerald kom fram í fjölmiðlum og gagnrýndi harðlega það umhverfi sem ríkir á matvörumarkaði sem hann sagði hamla eðlilegri samkeppni. Meðal annars kvartaði hann undan samskiptum sínum við birgja. Hann segir þetta þó hafa breyst nokkuð undanfarið og hefur fengið jákvæð viðbrögð þegar hann hefur rætt við birgja.

Allt stefnir því í að Kostur muni opna á morgun, en þetta er fyrsta matvöruverslunin sem Jón Gerald opnar hér á landi. Hann segist fullur tilhlökkunar og vonar að væntanlegir viðskiptavinir muni taka versluninni opnum örmum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×