Innlent

Vilja bráðabirgðafangelsi í Bitru

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Páll Winkel fangelsisstjóri segir nokkur húsnæði koma til greina. Mynd/ GVA.
Páll Winkel fangelsisstjóri segir nokkur húsnæði koma til greina. Mynd/ GVA.
Fangelsismálayfirvöld vilja helst leigja húsnæðið Bitru, sem er í grennd við Selfoss, undir nýtt bráðabirgðafangelsi, samkvæmt heimildum Vísis. Húsið Bitra var á sínum tíma nýtt sem kvennafangelsi en síðustu ár hefur verið rekið þar gistiheimili. Páll Winkel fangelsismálastjóri vildi í samtali við Vísi ekkert láta hafa eftir sér um málið annað en það að fangelsið þyrfti að geta hýst 10 - 20 fanga og uppfylla ákveðin skilyrði sem væru gerð til fangelsa.

„Það eru nokkur húsnæði sem koma til greina en það eru ekkert sérstaklega mörg því að þetta er bráðavandi sem kallar á bráðabirgðalausn og það þarf að vera tilbúið strax," segir Páll í samtali við Vísi. Auglýst hafi verið eftir húsnæðinu og svo verði hagstæðasta tilboðinu tekið.

Aðspurður segir Páll að þrátt fyrir að nýtt húsnæði verði leigt muni biðlisti eftir afplánun áfram verða mjög langur. „Já, það er alveg klárt mál," segir Páll. Hann bendir á að gæsluvarðhaldsföngum hafi fjölgað um 50-60% á örfáum árum. „Þannig að það er klárt mál að það þarf fleira til en þetta er góð byrjun," segir Páll.

Hann bendir jafnframt á að listi yfir fanga í afplánun hafi farið úr nokkrum tugum í 240 manns á nokkrum árum. Biðtíminn eftir afplánun geti verið nokkrir mánuðir til nokkurra ára. Það fari eftir því hvernig hegðun hins dæmda er. „Við reynum að taka þá inn sem eru virkir í afbrotum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×