Innlent

Hagfræðingur: Greiðsluþrot verður vart umflúið

Sigríður Mogensen skrifar
Greiðsluþrot þjóðarbúsins verður vart umflúið og aðgerðaráætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þarfnast róttækrar endurskoðunar. Þetta kemur fram í bréfi sem Gunnar Tómasson, hagfræðingur, sendi alþingismönnum í gærkvöldi.

Gunnar Tómasson starfaði sem sérfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í aldarfjórðung. Hann hélt fyrirlestur í Reykjavíkur Akademíunni þann 7. febrúar síðastliðinn. Þar viðraði hann þá skoðun sína að íslenska þjóðarbúið stefndi í greiðsluþrot innan 12 til 18 mánaða. Í bréfi sínu til alþingismanna segir Gunnar að framvinda mála í kjölfarið hafi styrkt þá skoðun hans.

Þar kemur fram að íslenska þjóðarbúið sé með fjórfalt hærri erlenda skuldastöðu en þau 50-60% af landsframleiðslu sem Harvard prófessorinn og fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins Kenneth Rogoff segir vera mjög erfiða viðureignar. Þá sé erlend skuldastaða þjóðarbúsins tvöfalt hærri en þau 100-150% sem Rogoff segir vera fá fordæmi um að skuldsettar þjóðir hafi ráðið við.

Gunnar vitnar í kafla úr nefndaráliti annars minnihluta fjárlaganefndar Alþingis frá því í sumar. Þar segir að skuldsetning þjóðarbúsins erlendis sé komin langt umfram það sem gerist hjá mörgum skuldugustu þjóðum heims.

Í úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá nóvember 2008 var erlend brúttóskuldsetning þjóðarbúsins áætluð 160% af landsframleiðslu á þessu ári. Eins og fréttastofa hefur áður greint frá var skuldsetningin vanmetin á þeim tíma og stefnir allt í að erlendar skuldir þjóðarbúsins séu orðnar um það bil 240-250% af landsframleiðslu. Þess má geta að nýtt skuldaþolsmat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins liggur ekki fyrir þar sem endurskoðun sjóðsins á efnahagsáætlun Íslands bíður enn.

Gunnar segir að aðgerðaráætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hafi byggt á allt öðrum forsendum varðandi erlenda skuldastöðu, þarfnist róttækrar endurskoðunar. Greiðsluþrot þjóðarbúsins verði vart umflúið.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×