Innlent

Ummæli forsvarsmanna Bónuss byggð á misskilningi

Mynd/Anton Brink
Ummæli forsvarsmanna Bónuss um verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands er byggð á misskilningi, að fram kemur í tilkynningu frá Alþýðusambandinu. Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, segir í Fréttablaðinu í dag að Alþýðusambandið villi um fyrir neytendum með því að bera saman tvær ólíkar vörutegundir í verðkönnun sinni.

Málið snýst um verðkönnun sem verðlagseftirlitið framkvæmdi nýverið og þar kom meðal annars fram að ferskur ávaxtasafi kosti 219 krónur í Bónus en 99 krónur í Krónunni. Þessu hafnar Guðmundur og segir að ekki hafi verið að bera saman sömu vörurnar.

Fram kemur í tilkynningu frá Alþýðusambandinu að umrædd verðkönnun hafi verið framkvæmd í öllum verslunum á sama tíma og skráð hafi verið niður verð á þeim vörum sem stóðu neytendum til boða í versluninni á þeim tímapunkti.

„Meðal þeirra vara sem kannaðar voru, var ódýrasta fáanlega lítraverð af hreinum appelsínusafa í hverri verslun. Er þar eingöngu miðað við að varan uppfylli sett skilyrði en horft fram hjá vörumerkjum og gæðamati að öðru leiti," segir í tilkynningunni.

Þetta sé gert í þeirri viðleitni að upplýsa neytendur um hvar mest magn af tiltekinni vöru fáist fyrir lægsta verðið. Þetta sé skýrt tekið fram við birtingu könnunarinnar.

„Í tilviki Bónuss, var ódýrasta fáanlega lítraverð af hreinum appelsínusafa kr. 219 þegar verðkönnun ASÍ fór fram í Bónusversluninni við Langholt á Akureyri þriðjudaginn 9.júní sl. Ummæli forsvarsmanna Bónuss virðast því á misskilningi byggð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×