Innlent

Stjórn lífeyrissjóðs Kópavogs grunuð um lögbrot

Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar er grunuð um lögbrot og hefur stjórninni verið skipaður umsjónaraðili. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Þar segir að fjármálaráðherra hefur að tillögu Fjármálaeftirlitsins skipað lífeyrissjóðnum umsjónaraðila um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemilífeyrissjóða vegna gruns um að ákvarðanir stjórnar sjóðsins um fjárfestingar hafi ekki verið í samræmi við lög. Þá hefur ítrekuðum kröfum Fjármálaeftirlitsins um úrbætur ekki verið sinnt.

Elín Jónsdóttir, lögfræðingur, hefur verið skipuð umsjónaraðili lífeyrissjóðsins frá og með 19. júní 2009 og tekur hún við réttindum og skyldum stjórnar og framkvæmdastjóra fram til 19. ágúst næstkomandi.

Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogsbæjar var stofnaður árið 1958 að því er fram kemur á heimasíðu Kópavogsbæjar. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Sigrún Bragadóttir. Stjórn sjóðsins skipa fimm aðilar, tveir eru kosnir af sjóðfélögum og tveir af bæjarstjórn Kópavogsbæjar. Hinn fimmti er bæjarstjórinn Gunnar Birgisson og er hann formaður sjóðsstjórnar.

Stjórnina skipa Gunnar I. Birgisson, Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi Samfylkingar, Jón Júlíusson og Sigrún Guðmundsdóttir. Í þessum skrifuðu orðum stendur yfir stjórnarfundur hjá sjóðnum og sagði Flosi Eiríksson að yfirlýsingar væri að vænta hjá fráfarandi stjórn að honum loknum.

Elín Jónsdóttir, nýskipaður umsjónarmaður sjóðsins, vildi ekki tjá sig um málefni sjóðsins þegar fréttastofa hafði samband við hana.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×