Innlent

Skaðleg efni í rafsígarettum

Innflutningur og dreifing á rafsígarettum án markaðsleyfis hér er brot á lyfjalögum.
Innflutningur og dreifing á rafsígarettum án markaðsleyfis hér er brot á lyfjalögum.
Lyfjastofnun hefur sent frá sér viðvörun þar sem varað er við kaupum á rafsígarettum á netinu. Jafnframt að innflutningur og dreifing þeirra hér á landi sé brot á lyfjalögum.

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu um rafsígarettur vekur Lyfjastofnun athygli á því að rafsígarettur, sem innihalda nikótín, séu flokkaðar sem lyf hér á landi. Innflutningur og dreifing slíkra vara án markaðsleyfis sé því brot á lyfjalögum.

Stofnunin ítrekar að bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið, FDA, hafi rannsakað elektrónískar sígarettur eða rafsígaretturnar og í ljós hafi komið að þær innihéldu, auk nikótíns ýmis skaðleg og jafnvel krabbameinsvaldandi efni svo sem ýmis nítrósamínsambönd og díetýlen glýkól. Hafi FDA sent frá sér viðvörun vegna notkunar rafsígarettna.

Þá varar Lyfjastofnun fólk almennt við kaupum á lyfjum á netinu. Slík verslun með lyf sé óheimil samkvæmt íslenskum lögum. Auk þess er bent á að rannsóknir hafi sýnt að yfir 60 prósent lyfseðilsskyldra lyfja sem seld eru á netinu séu fölsuð og yfir 90 prósent netapóteka starfi ólöglega. - jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×