Lífið

Tryggður en fær tjónið ekki bætt

Kristjan Zaklynsky segir það vera mikinn missi að hafa tapað tölvunni og lofar fundarlaunum komi hún í leitirnar.
Kristjan Zaklynsky segir það vera mikinn missi að hafa tapað tölvunni og lofar fundarlaunum komi hún í leitirnar.
Listamaðurinn Kristjan Zaklynsky varð fyrir barðinu á óprúttnum aðila um helgina þegar tölvunni hans var rænt af honum á skyndibitastað í miðbæ Reykjavíkur.

„Ég og kærasta mín vorum að fara að borga fyrir pitsusneiðar sem við höfðum keypt þegar einhver rífur af mér tölvutöskuna mína og hleypur burt. Við fengum að skoða upptökur úr öryggis­myndavél staðarins en þar sést ekki í þjófinn heldur,“ segir Kristjan. Tölvan var af gerðinni MacBook Pro, með fimmtán tommu skjá og var búið að líma Gogoyoko-límmiða yfir eplið, vörumerki framleiðandans.

Tjónið er talsvert því í tölvutöskunni var einnig harður diskur og myndavél. „Harði diskurinn og myndavélin mín voru einnig í töskunni þannig að öll vinna mín síðustu tvö árin er að mestu horfin, en meðal þess var tónlistar­myndband fyrir Pál Óskar, tónlist sem ég hef samið með hljómsveitinni Company B og teikningar sem ég var að vinna fyrir nokkrar auglýsinga­stofur.“

Kristjan segist vera tryggður en að hann fái tjónið ekki bætt þar sem honum var hvorki hótað af þjófnum né hlaut líkamleg meiðsl. „Ég er bæði með heimilistryggingu og tækjatryggingu hjá TM, en þeir segjast ekki bæta tjón sem þetta nema að mér hafi verið hótað eða ef ráðist hafi verið á mig, sem er bæði skrítið og skítt. Starfsmaðurinn sem afgreiddi okkur sagði einnig að þau fengju mörg sambærileg mál inn til sín en að þau séu sjaldan bætt.“

Kristjan, sem flytur til New York eftir mánuð, vonast til að tölvan komi í leitirnar og hefur lofað fundarlaunum endurheimti hann gripinn.

„Það er hægt að ná í mig í síma 869-6844 eða senda mér póst á kristjanz@gmail.com. Ég væri mjög þakklátur fengi ég tölvuna aftur,“ segir Kristjan að lokum. - sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.