Erlent

Tuttugu og einn lét lífið í bruna í Póllandi

Að minnsta kosti tuttugu og einn lét lífið þegar athvarf fyrir heimilislausa brann til grunna í norðvesturhluta Póllands í nótt. Margir eru slasaðir eftir að hafa stokkið út um glugga til að bjarga sér frá eldinum.

Sjötíu og sjö voru skráðir til heimilis í athvarfinu en þar kunna einnig að hafa verið einhverjir gestir. Þriggja hæða húsið varð alelda á skömmum tíma og stóðu eldtungurnar hátt til himins.

Brunastigar náðu aðeins upp á fyrstu hæðina. Margir slösuðust þegar þeir stukku út um glugga á efri hæðunum. Börnum var kastað út um glugga til þeirra sem voru á jörðu niðri og þeim bjargað þannig.

Ekkert var ráðið við eldinn og húsið brann alveg til grunna. Slökkviliðsmenn eru enn að leita að líkum í rústum þess. Ekki er vitað um eldsupptök á þessari stundu.

Forseti Póllands; Lech Kaczynski, hefur lýst yfir 3ja daga þjóðarsorg vegna brunans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×