Erlent

Lottótölur gera Búlgara brjálaða

Búlgörsk stjórnvöld hafa hleypt af stokkunum rannsókn vegna ótrúlegs atviks sem átti sér stað í ríkislottói landsins á dögunum. Þá voru dregnar út tölurnar 4 - 15 - 23 - 24 - 35 og 42 sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að nákvæmlega sömu tölur komu upp úr kassanum í drættinum vikuna á undan.

Íþróttamálaráðherra landsins er með málið á sinni könnu og segir hann að niðurstaða rannsóknarinnar muni liggja fyrir áður en dregið verði að nýju. Hann segir einnig að skipt hafi verið um framkvæmdastjórn í lottóinu.

AP fréttastofan segir frá málinu og hefur eftir stærðfræðingum að líkurnar á því að sömu tölur komi upp tvisvar í röð séu einn á móti fjórum milljónum. Talsmenn lóttósins þvertaka hinsvegar fyrir að brögð hafi verið í tafli og staðhæfa að um hreina tilviljun sé að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×