Erlent

Obama varði tillögur sínar um umbætur í heilbrigðismálum

Guðjón Helgason skrifar
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, varði í gærkvöldi tillögur sínar um umbætur í heilbrigðismálum. Mynd/AP
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, varði í gærkvöldi tillögur sínar um umbætur í heilbrigðismálum. Mynd/AP
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, varði í gærkvöldi umbætur sínar í heilbrigðismálum fyrir báðum deildum Bandaríkjaþings. Viðbrögð þingmanna voru blendin. Einn viðhafði frammíköll og sagði forsetann ljúga.

Ræða Obama í gærkvöldi er sögð hafa verið einhver sú mikilvægasta frá því hann tók við forsetaembættinu í janúar síðastliðnum. Bandaríkjaforseti vildi með ávarpinu kynna fyrir þingi og þjóð áform sín um endurbætur á bandaríska heilbrigðiskerfinu þar sem ekki séu allir með sjúkratryggingu og ekkert allsherjar kerfi sem útvegi þær flestum eða öllum.

Obama sagðist ekki vera fyrsti Bandaríkjaforsetinn til að taka þetta mál upp en hann ætlaði að verða sá síðasti.

Þingið smíðar nú löggjöf sem báðar þingdeildir greiða síðan atkvæði um og forsetinn síðan staðfestir eða synjar.

Í megindráttum vill forsetinn að kostnaður við sjúkratryggingar hjá einkareknum tryggingafélögum minnki, tryggt verði að allir Bandaríkjamenn hafi sjúkratryggingu og þeir geti valið sínar tryggingar sjálfir, þar á meðal tryggingar sem hið opinbera veiti.

Repúblíkanar segja opinbert tryggingakerfi skaða hið einkarekna og með opinberum tryggingum falli meiri kostnaður á skattgreiðendur. Auk þess græði ólöglegir innflytjendur á kerfinu. Forsetinn svaraði því til að álögur á skattgreiðendur yrðu ekki auknar

Obama sagði tillögur sínar ekki ná til ólöglegra innflytjenda.

Það var repúblíkaninn Joe Wilson, þingmaður Suður-Karólínuríkis í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, sem brást illa við og sagði forsetann ljúga.

Stjórnmálaskýrendur segja ekki dæmi um slík frammíköll í ræðu Bandaríkjaforseta þar sem gripið sé til svívirðinga. Það sýni hve mikill hiti sé í málinu. Margir stjórnmálaskýrendur segja að forsetinn hefði átt að flytja ræðu sína mánuði fyrr. Sókn hans hafi hugsanlega farið of seint af stað og þingmenn beggja flokka þegar með mótaða skoðun en margir samflokksmenn hans í Demókrataflokknum eru efins um breytingaráformin.

Útlit sé því fyrir langa baráttu og mikil hrossakaup áður en greidd verði atkvæði um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×