Innlent

Grunnur að endurreisn efnahagslífsins

Heimir Már Pétursson skrifar

Markmið stöðuleikasáttarinnar er að stýrivextir verði komnir í eins stafs tölu í nóvember, verðbólga verði komin í 2,5 prósent í lok næsta árs og unnið verði gegn atvinnuleysi með framkvæmdum með aðkomu lífeyrissjóða og einkaaðila.

 

Grunnforsenda stöðugleikasáttmálans er að allir kjarasamningar verða bundnir til nóvembermánaðar 2010. Þá eiga áætlanir um skattahækkanir og niðurskurð hins opinbera upp á 128 milljarða króna á næstu þremur árum að skapa grundvöll fyrir lækkun stýrivaxta sem stefnt er að að geti orðið 9 prósent í nóvember á þessu ári.

 

Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna framkvæmda upp á rúma 300 milljarða á næstu þremur árum, en þeirra á meðal er álver í Helguvík og endurnýjun álversins í Straumsvík. Þá verður gengið frá samkomulagi við lífeyrissjóðina um aðkomu þeirra að stórframkvæmdum á næstu árum upp á um 130 milljarða á næstu árum, en þeirra á meðal er bygging hátæknisjúkrahúss, tvöföldun Hvalfjarðarganga, Vaðlaheiðargöng tvöföldun Suðurlandsvegar, lagning Sundabrautar og fleira.

 

Við endurreisn bankanna verði miðað að því að erlendir aðilar geti eignast meirihluta í einhverjum bankanna til að tryggja fyrirtækjum og heimilum eðlilegan aðgang að erlendu lánsfé. Endurskipulagningu á eignarhaldi bankanna verði lokið fyrir 1. nóvember. Þá verði gjaldeyrishöftum aflétt í áföngum þannig að hömlum á nýrri fjárfestingu verði aflétt í nóvember.

 

Samstarf ríkis- og sveitarfélaga í efnahagsmálum verður aukið og gengið frá skuldum ríkisins við sveitarfélögin vegna húsaleigubóta. Þetta er aðeins brot af þeim aðgerðum sem gripið verður til en nánari útfærsla á sköttum og niðurskurði kemur fram við fjárlagagerðina í haust, en fjármálaráðherra mun innan tíðar kynna meginlínur í þessum efnum.

 

Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambandsins orðaði markmið samkomulagsins með þeim hætti, að menn sameinuðust um það sem þeir væru sammála um og það myndi leiða þjóðina í rétta átt og mælti þar sennilega fyrir munn allra þeirra sem skrifuðu undir samkomulagið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×