Innlent

Orkusjóður úthlutar styrkjum fyrir 158 milljónir

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra hefur staðfest tillögur Orkuráðs um styrki úr Orkusjóði til rannsókar- og kynningarverkefna fyrir árið 2009. Alls er um 13 styrki að ræða fyrir rúmar 158 milljónir króna. Styrkirnir eru veittir verkefnum sem beinast að nýtingu innlendra orkugjafa og hagkvæmri orkunotkun.

Veittir eru 13 styrkir að upphæð 25,6 milljónir króna. Alls bárust 57 umsóknir um samtals 158,3 milljónir króna og voru í þeim hópi ýmis áhugaverð og mikilsverð verkefni sem ekki var unnt að styrkja að þessu sinni.

Rannsóknar- og fræðslustyrkirnir eru veittir árlega úr Orkusjóði samkvæmt lögum um Orkustofnun, Orkuráð og Orkusjóð til sérstakra verkefna á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þar með talið til fræðslu og upplýsingastarfsemi.

Í auglýsingunni var nú líkt og undanfarin ár, lögð áhersla á verkefni sem snertu hagkvæma orkunýtingu og orkusparnað, innlenda orkugjafa, vistvænt eldsneyti og sparnað jarðefnaeldsneytis.

Um hvern styrk er gerður samningur þar sem kveðið er á um verk- og kostnaðaráætlun, áfanga við greiðslu styrkfjárhæðarinnar, framvinduskýrslur og skilagögn. Miðað er við að styrkir úr Orkusjóði geti numið allt að helmingi kostnaðar við verkefnið sem styrkinn hlýtur eða þann hluta þess sem styrktur er.

Orkuráð starfar í tengslum við Orkustofnun og er meginhlutverk þess að sjá um rekstur Orkusjóðs, sem úr eru veitt áhættulán fyrir jarðhitaverkefnum og styrkir til rannsókna og fræðsluverkefna um endurnýjanlega orku, orkunýtingu og -sparnað.

Iðnaðarráðherra skipar menn í ráðið og starfa þar nú Mörður Árnason, formaður, Bryndís Brandsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Guðmundsson og Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×