Lífið

Birgitta og Bensi fengu strák

Birgitta er alsæl með soninn sem kom í heiminn þann 25. júní en hann þykir mikill myndarstrákur.
Fréttablaðið/Valli
Birgitta er alsæl með soninn sem kom í heiminn þann 25. júní en hann þykir mikill myndarstrákur. Fréttablaðið/Valli

Birgitta Haukdal og maðurinn hennar, Benedikt Einarsson, eignuðust lítinn strák hinn 25. júní. Móður og syni heilsast vel en strákurinn ku vera mikill myndar­piltur. Heimilið að Bakkaflöt 3 í Garðabænum er því í miklum blóma um þessar mundir og lífið leikur við ungu hjónin, sem hafa verið að koma sér fyrir í þessu glæsilega húsi. Ekki verður langt fyrir ættingjana að heimsækja hvítvoðunginn því frændi Benedikts, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðis­flokksins, á heima beint á móti þeim og tveir aðrir af hinni margfrægu Engeyjar­ætt búa við þessa virðulegu götu í Garðabænum.

Undanfarnir mánuðir hafa því verið viðburðaríkir hjá hjónakornunum. Þau gengu í það heilaga í október á síðasta ári við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni. Nokkrum dögum síðar fengu þau svo að vita að söngkonan ástsæla bæri barn undir belti. „Litla barnið var því leynigestur í brúðkaupinu okkar,“ sagði Birgitta í viðtali við Föstudag í mars.

Birgitta lýsti því reyndar yfir í sama viðtali að hún hefði fengið æði fyrir súrmat, hún hefði hakkað í sig súra hrútspunga og annan þorramat af bestu lyst á meðgöngunni. Þá upplýsti hún einnig að barneignir hefðu ekki verið á dagskránni hjá sér í mörg ár. „Mín skoðun er sú að við verðum að finna manninn okkar sem við viljum eyða ævinni með og koma okkur fyrir áður en barneignir byrja. Ég lít alls ekki á barneignir sem sjálfsagðan hlut og á hverjum degi þakka ég fyrir litla kraftaverkið okkar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.