Innlent

Lánuðu fimmtung sjóðsins til bæjarins

Gunnar Birgisson, fráfarandi bæjarstjóri Kópavogs, var formaður stjórnar LSK.
Gunnar Birgisson, fráfarandi bæjarstjóri Kópavogs, var formaður stjórnar LSK.

Lánveitingar stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar (LSK) til bæjarfélagsins Kópavogs námu 500 til 600 milljónum króna þegar mest lét, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Hlutfall lánveitinga af eignum sjóðsins fór allt upp í tuttugu prósent en leyfilegt hámark samkvæmt lögum er tíu prósent.

Fjármálaeftirlitið hefur kært stjórn LSK til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra.

Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari vill ekki tjá sig efnislega um málið að svo stöddu. Fjármálaráðherra vék stjórn sjóðsins frá í gær og skipaði honum tilsjónarmann.

Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, og Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi framsóknarmanna, sem sátu í stjórn LSK segjast afar undrandi. Flosi segir stjórnina ekki hafa átt aðra fjárfestingarkosti. „Allt í einu eigum við töluverða peninga sem losna hjá Sparisjóði Mýrasýslu sem og öðrum; hvað á að gera við þá? Hverjum er best treystandi fyrir þeim? Það sem við ákváðum að gera var að lána bænum þá til mánaðar í senn á hæstu vöxtum."

Flosi segir stjórnina aldrei hafa farið í grafgötur með að hún hafi brotið lög þegar lánahlutfallið var yfir tíu prósentum. „Ég veit ekki hvort ég hafi brotið af mér sem bæjarfulltrúi með því að gæta hagsmuna bæjarins og bæjarbúa eins vel og ég veit og kann. Ég held ég hafi ekkert að óttast í þessu efni," segir hann aðspurður.

Ómar Stefánsson segist undrast ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, ekki síst í ljósi þess að umræddir peningar hafi farið aftur til lífeyris­sjóðsins 29. maí þó fresturinn sem bærinn hafði til þess renni ekki út fyrr en 31. júlí.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×