Innlent

Hátt í tuttugu unglingar í meðferð á BUGL vegna offitu

Hátt í tuttugu unglingar sem glíma við offitu hafa verið í meðferð hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans undanfarið ár meðal annars vegna þunglyndis, kvíða og annarra sálrænna kvilla sem eru fylgifiskar offitu. Mörg þeirra eru 20 til 30 kílóum of þung, sum jafnvel enn þyngri.

Hátt í hundrað börn allt frá 3ja til 17 ára sem glíma við offitu bíða nú eftir meðferð á Landspítalanum. Sum þeirra á aldrinum 13 til 17 ára eru illa haldin og geta verið tuttugu til þrjátíu kílóum of þung, jafnvel þyngri. Mörg glíma við ýmsa fylgikvilla svo sem þunglyndi, kvíða, sykursýki, stoðgrindarvanda og annað. Þessum ungmennum er veitt meðferð á barna og unglingageðdeild Landspítalans. Ósk Sigurðardóttir er yfiriðjuþjálfi þar.

„Það er í rauninni allt daglegt líf farið úr skorðum. Þau eru mörg byrjuð að einangra sig. Vilja ekki mæta í skólann og farin að einangra sig þegar þau koma heim og eru til dæmis mikið í tölvunni. Þau eru vanvirk á allan hátt og hætt að taka þátt í hreyfingu," segir Ósk Sigurðardóttir, yfiriðjuþjálfi á BUGL.

Ósk segir marga þætti valda offitu en þó sé hreyfingarleysi og aukin tölvunotkun mjög áberandi meðal þessa hóps. „Þau eiga kannski ekki mjög marga vini. Tölvan er til staðar."

„Þetta er auðveld leið. Þú þarft ekki að fara út," segir Ósk.

Meðferðin gengur út á matardagbók og sálfræðimeðferð sem hjálpar þeim að takast á við vandann. En foreldrum er einnig veitt ráðgjöf.

„Við ráðleggjum þeim að passa upp á mataræði unglinganna. Það eru þau sem kaupa inn og það eru líka þau sem vita hvað er temmilegt að borða," segir Margrét Gísladóttir, yfirgeðhjúkrunarfræðingur á BUGL.

Á einu ári hafa 20 ungmenni notast við þessa meðferð með góðum árangri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×