Innlent

Áfram leyft að leysa út viðbótarsparnað

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir. MYND/Pjetur

Ríkisstjórnin áformar að heimila fólki að leysa út eina milljón af viðbótarlífeyrissparnaði sínum á næsta ári, eins og leyft var á þessu ári, til að auka eftirspurn í hagkerfinu.

Alþingi samþykkti fyrr á þessu ári frumvarp frá ríkisstjórninni sem heimilaði fólki að taka út allt að eina milljón af séreignasparnaði sínum til að létta undir með heimilunum og eins til að auka veltu í hagkerfinu. Þó nokkuð var um að fólk notfærði sér þetta en þó ekki eins mikið og stjórnvöld höfðu reiknað með.Lilja Mósesdóttir þingmaður Vinstri grænna og formaður viðskiptanefndar Alþingis sagði í Íslandi í bítinu á Bylgjunni í morgun, að grípa yrði til mótvægisaðgerða vegna aukinnar skattheimtu á næsta ári til að auka eftirspurn í hagkerfinu. Hún vildi sjá að meira yrði tekið út úr lífeyrissjóðunum.

Þá sagði Lilja að skattbreytingar ríkisstjórnarinnar gengju ekki eingöngu út á skattahækkanir, heldur einnig út á að auka tekjujöfnuð í landinu. En ríkisstjórnin undirbýr nú framlagninu skattafrumvarpa sinna, sem meðal annars gera ráð fyrir nýjum skattþrepum í bæði tekjuskatti og virðisaukaskatti sem afla eiga ríkissjóði nokkra tuga milljarða í auknar tekjur á næsta ári. Stefnt er að því að fólk með tekjur undir 250 þúsund krónur á mánuði greiði heldur lægri skatta en nú, en að skattar hækki hjá öðrum tekjuhópum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×