Innlent

Hanna Birna: Uppsagnir ekki á dagskrá

Hanna Birna.
Hanna Birna. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár var lögð fram í morgun, en spara á yfir þrjá milljarða króna. Engin sparnaðarkrafa verður gerð á velferðarsviði, en fjögurra prósenta niðurskurður verður á leikskóla- mennta- og íþrótta og tómstundasviði. Sparnaðarkrafan verður öllu meiri í framkvæmdum, viðhaldi og í starfsmannamálum, þó stendur ekki til að segja neinum upp, segir Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri.

Frumvarp um fjárhagsáætlun var lagt fram í borgarstjórn Reykjavíkur í morgun. Í áætluninni er gert ráð áframhaldandi samdrætti í tekjum borgarinnar. Meirihlutinn segir að honum verði mætt með hagræðingu í stjórnsýslu og rekstri, en skattar og gjöld fyrir grunnþjónustu verði ekki hækkuð. Engin hagræðingarkrafa er gerð á velferðarsviði en gert er ráð fyrir að menntasvið, leikskólasvið og ÍTR hagræði um 4% í rekstrinum. Þá er gerð 9% hagræðingarkrafa á öðrum sviðum borgarinnar, svosem framkvæmda og umhverfissviði. Í allt er stefnt á að spara 3,3 milljarða króna hjá borginni.

Tæpur fimmtungur sparnaðarins á að nást með auknum samrekstri og auknu eftirliti. Þá á um fjórðungur sparnaðarins að nást með hagræðingu í viðhaldi og húsnæðiskostnaði borgarinnar og annað eins með hagræðingu í samningum og styrkjum. Þá verður aðhald í ráðningum og launaútgjöldum, en ekki stendur til að segja upp fólki.

„Við erum að hagræða á öllum sviðum. Við erum að hagræða í stjórnsýslu og almennum rekstri og þannig tekst okkur að gera þetta án þess að hækka skatta og hækka gjaldskrár sem er aðalatriðið,“ sagði Hanna Birna í samtali við fréttastofu.

Borgarstjóri fullyrðir að hagræðingin komi ekki til með að koma niður á börnum. „Við almennir borgarar munum kannski finna fyrir henni í minni viðhaldi, minni slætti, minni hreinsun og allskonar hlutum sem við höfum gert vel á undanförnum árum en getum aðeins beðið með.“

Foreldrar leikskólabarna fjölmenntu á áhorfendapallana í Ráðhúsinu í morgun þegar fjárhagsáætlunin var rædd. Foreldrarnir vildu leggja áherslu á að niðurskurður borgarinnar myndi ekki bitna á leikskólabörnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×