Innlent

Reykjavíkurborg fer ekki varhluta af efnahagsástandinu

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri.
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri.

„Fjárhagsáætlunin endurspeglar sameiginlegan vilja allrar borgarstjórnar að standa með borgarbúum við þessar aðstæður. Hún endurspeglar einnig að Reykjavíkurborg fer ekki varhluta af erfiðum efnahagsaðstæðum í íslensku samfélagi og að Reykjavíkurborg mætir þeirri stöðu með aðhaldi, hagræðingu og sparnaði - líkt og allir aðrir verða að gera," sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, í ræðu sinni við síðari umræðu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009. Umræðan hefur staðið yfir nú eftir hádegi.

Hagrætt í þágu grunnþjónustu



Í máli borgarstjóra kom fram að með samstilltu átaki borgarfulltrúa, stjórnenda, starfsmanna og þverpólitískri vinnu í aðgerðarhópi borgarráðs hyggst borgarstjórn standa vörð um grunnþjónustuna, verðskrár og störfin hjá borginni. Frumvarpið er í samræmi við aðgerðaráætlun borgarstjórnar sem samþykkt var einróma síðasta haust. Gert er ráð fyrir að A-hlutinn verði rekinn hallalaus, útsvar verði óbreytt í 13,03% og fasteignaskattar verði ekki hækkaðir en útgjöld til velferðarmála aukin vegna sérstakra aðstæðna. Hagrætt verður verulega í stjórnsýslunni og alls staðar þar sem því er hægt að koma við.

Þetta er meðal annars gert með því að endurskoða öll rekstrarútgjöld, stórfelldu aðhaldi í innkaupum, endurskoðun samninga og með því að draga úr styrkveitingum. Laun borgarfulltrúa og æðstu stjórnenda verða lækkuð um 10% og kostnaður vegna yfirvinnu verður endurskoðaður samhliða því sem dregið verður úr nýráðningum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×