Lífið

Harðari en fólk býst við

Bróðir Svartúlfs á tónleikum á Dillon í sumar.
Bróðir Svartúlfs á tónleikum á Dillon í sumar.

Bróðir Svartúlfs varð tuttugasta og sjöunda hljómsveitin til að bera sigur úr býtum í Músíktilraunum í apríl. Bandið blandar saman rappi og rokki og hefur nú gefið út fyrstu plötuna sína. Hún er sex laga og samnefnd sveitinni. „Við tókum hana upp að hluta til fyrir sigurlaunin,“ segir Arnar Freyr Frostason, söngvari/rappari sveitarinnar.

„Í heild er platan harðari en fólk býst við frá okkur. Það má jafnvel segja að við höfum aðeins verið að blekkja með því að láta bara ljúfustu lögin okkar heyrast.“ Hér er Arnar að tala um lög eins og „Fyrirmyndar veruleika flóttamaður“, sem mikið hefur heyrst á Rás 2.

Bróðir Svartúlfs varð til í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki en þaðan eru þrír meðlimir. Hinir tveir eru frá Blönduósi og Skagaströnd. Eru þetta þá sveitamenn? „Tja, ég hef reyndar átt tvö hross um dagana,“ segir Arnar. „Annað drapst í hárri elli en hitt var alltaf brjálað. Gítarleikarinn Sigfús segist eiga tuttugu rollur. Allavega talar hann alltaf um rollurnar þegar við keyrum fram hjá bænum hans á leiðinni til Reykjavíkur.“

Þrír úr bandinu eru fluttir suður, þeirra á meðal Arnar sem nemur ritlist í Háskólanum. „Hinir tveir flytja í bæinn eftir áramót og þá getum við byrjað að vinna nýtt efni. Ég veit ekki um hina en ætli maður flytji svo ekki aftur norður svona um þrítugt. Það er eiginlega ekkert fólk á milli tvítugs og þrítugs á Sauðárkróki. Maður er málaður út í horn og þarf að flytja af svæðinu ef maður vill mennta sig.“

Útgáfutónleikar verða haldnir á Sódómu á laugardagskvöld. - drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.