Erlent

Vekur vonir um sigur á AIDS

Þeir Eric John, sendiherra Bandaríkjanna í Taílandi, og Witthaya Kaewparrdai, heilbrigðisráðherra Taílands, kynntu niðurstöður tilraunarinnar á blaðamannafundi í Bangkok.Nordicphotos/AFP
Þeir Eric John, sendiherra Bandaríkjanna í Taílandi, og Witthaya Kaewparrdai, heilbrigðisráðherra Taílands, kynntu niðurstöður tilraunarinnar á blaðamannafundi í Bangkok.Nordicphotos/AFP
Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO og Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna segja að tilraunir í Taílandi með nýtt bóluefni gegn alnæmi hafi gengið vel og lofi mjög góðu.

Í Taílandi var gerð stærsta tilraun með bóluefni gegn alnæmi sem ráðist hefur verið í til þessa. All tóku sextán þúsund sjálfboðaliðar þátt í tilrauninni. Niðurstaðan varð sú að þeir sem fengu bóluefnið áttu mun síður á hættu að smitast af alnæmisveirunni HIV.

Munurinn var 31 prósent, sem að vísu telst ekki nægilega gott en er þó fyrsta merki þess að mögulegt sé að vinna bug á veirunni með bóluefni. „Þetta gerir mig hóflega bjartsýnan á að unnt verði að ná betri árangri,“ sagði Anthony Fauci, yfirmaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Taílands sem fjármagnaði tilraunina ásamt bandaríska hernum.

Nýja bóluefnið er samsett úr tveimur öðrum bóluefnum, ALVAC og AIDSVAX, sem ekki höfðu reynst vel hvort í sínu lagi. Í tilrauninni var annað bóluefnið gefið fyrst til þess að setja viðbrögð ónæmiskerfisins gegn HIV-veirunni af stað, en síðan var hitt efnið gefið til þess að styrkja áhrif fyrra efnisins.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×