Erlent

Obama fellst loksins á að hitta Gordon Brown

Obama og Brown þegar allt lék í lyndi.
Obama og Brown þegar allt lék í lyndi.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur loksins fallist á að hitta Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, eftir margítrekaðar tilraunir til þess að koma á fundi með þeim.

Báðir leiðtogarnir eru á G20 ráðstefnunni í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Starfsmenn Downingstrætis hafa fimm sinnum reynt að koma á fundi með leiðtogunum að ósk Gordon Brown en alltaf verið hafnað.

Obama hefur þegar fundað með leiðtogum Rússlands, Kína og Japan. Telja stjórnmálaspekúlantar að Obama sé beinlínis að snuða Brown en hingað til hefur gott samstarf ríkjanna verið áberandi.

Aðrir hafa sagt að þetta séu skýr merki þess að Obama telji að pólitískir dagar Brown verði brátt taldir.

Þá hefur Obama gagnrýnt Brown harðlega fyrir að sleppa Lockerbie hryðuverkamanninum. Meirihluti farþeganna sem létust í tilræðinu á níunda áratugnum voru Bandaríkjamenn.

Það var svo loksins í dag sem þeir hittust og ræddu meðal annars um málefni Íran og heimskreppuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×