Innlent

Hefur ekki trú á boðuðum breytingum á stjórnarskrá

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist aðspurður ekki hafa mikla trú á boðuðum stjórnarskrárbreytingum ríkisstjórnarinnar og fyrirhuguðu stjórnlagaþingi. Hann hefur lagt fram á Alþingi fyrirspurn til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í fimm liðum varðandi málið.

„Í fyrsta lagi finnst mér að fram til þessa hafi vantað pólitískt samráð um þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur boðað. Í því sambandandi nefni ég að allar stjórnarskrárbreytingar sem farið hafa í gegn á undanförnum áratugum hafi verið byggðar á víðtæku samráði og pólitískri sátt," segir Birgir.

Þá hefur þingmaðurinn áhyggjur af því tíminn fram að þingkosningum sé of skammur til að klára þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur nú þegar boðað.

Í þriðja lagi segist Birgir ekki átta sig á því hverju ríkisstjórnin ætli að gera efnislegar breytingar á stjórnarskránni í flýti fyrir kosningar en jafnframt boða til stjórnlagaþings síðar á árinu þar sem fara eigi yfir stjórnarskránna í heild sinni.

Birgir á von á því að forsætisráðherra svari honum fljótlega, jafnvel í næstu viku. Ekki sé um tæknilegar spurningar að ræða heldur pólitíska stefnumótun ríkisstjórnarinnar.

Spurningar Birgis:

1. Hver eru áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarskrá fyrir kosningar í vor?

2.Hver eru áform ríkisstjórnarinnar um pólitískt samráð um þessar breytingar?

3. Telur ráðherra að nægur tími sé til þess á þeim stutta tíma sem er til kosninga að gera breytingar á stjórnarskrá?

4. Hvaða sjónarmið voru lögð til grundvallar þegar nefndarmenn voru valdir í sérstaka ráðgjafarnefnd vegna fyrirhugaðra stjórnarskrárbreytinga?

5. Hvernig samrýmast áform ríkisstjórnarinnar um að breyta stjórnarskrá fyrir vorið hugmyndum sem einnig hafa verið kynntar um að setja á fót stjórnlagaþing síðar á þessu ári?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×