Innlent

Fjármálaráðherra: Við komumst betur út úr þessu en óttast var

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að Íslendingar komist betur út úr kreppunni en óttast var. Mynd/ Pjetur.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að Íslendingar komist betur út úr kreppunni en óttast var. Mynd/ Pjetur.
„Vélarnar eru í fullum gangi," er haft eftir Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra á vef breska blaðsins Telegraph. Telegraph segir raunar að hið sama eigi við um Steingrím J. Sigfússon sem hafi í síðustu viku komið á fót þremur nýjum bönkum í stað þeirra gömlu. Hagkerfið sé að komast í eðlilegt horf að nýju. „Við munum komast betur út úr þessu en óttast var," er haft eftir Steingrími. „Við finnum fyrir virkni í hagkerfinu og að mörgu leyti má þakka genginu það," bætir hann við.

Telegraph segir að gengi krónunnar hafi fallið um helming gagnvart evru frá því að bankarnir þrír hrundu í október á síðasta ári og íslenska hagkerfið með. Ekkert sé ódýrt á Íslandi en verðlagið sé þó viðráðanlegt. Kaffihúsin séu um þessar mundir full af ungmennum frá Evrópu sem geti notið næturlífsins. Á Íslandi megi nú finna vel stæða japanska ferðamenn, sem eitt sinn voru sjaldséðir. Þeir fari á matsölustað Sigga Hall eða í verslanir 66° Norður í Bankastræti, sem dæmi.

Telegraph segir að Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) búist við því að samdráttur verði um 7% á Íslandi þetta árið. Það sé töluvert minni samdráttur en í Írlandi, þar sem hann verði 9,8%. Hagkerfið hér muni jafna sig hraðar en á Írlandi.

Telegraph gerir hins vegar ekki lítið úr vanda Íslendinga. Til dæmis hafi launþegar tekið á sig allt að 10% launalækkanir. Þá standi Íslendingar frammi fyrir 5% niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarkerfinu, 7% niðurskurði í menntakerfinu og 10% niðurskurði annarsstaðar í opinberum rekstri.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×