Innlent

Segir þrjá ráðgjafa fjárlaganefndar vanhæfa

Helga Arnardóttir skrifar
Þingmaður Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd segir þrjá ráðgjafa sem nefndin hafi kallað til sín fullkomlega vanhæfa og hlutdræga þar sem þeir sitji ýmist í samninganefndinni, sem gerði Icesave samkomulagið við Breta, eða komu að samningagerðinni. Í samningnum skuldbindi þeir sig til að fylgja því eftir að hann verði samþykktur á Alþingi.

Fjárlaganefnd Alþingis hefur nú unnið að Icesave samkomulaginu undanfarnar vikur. Enn hefur uppgreiðslusamningurinn sjálfur ekki verið gerður opinber en búist er við því að það verði gert á næstunni. Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknar og fulltrúi flokksins í fjárlaganefndinni segir að þrír ráðgjafar sem nefndin hafi kallað til sín vegna Icesave samningsins sitji beggja vegna borðsins og séu því vanhæfir.

„Þau skuldbinda sig gagnvart Bretunum að vinna að hvers kyns löggjöf sem þarf til þess að við staðfestum samninginn hér á Alþingi. Það er í mínum huga eitthvað það versta sem hefur komið í ljós. Vegna þess að þessir aðilar hafa verið að veita svokölluð óháð álit ef óháð skyldi kalla," segir Höskuldur.

Þetta eru þau Indriði H. Þorláksson aðstoðarmaður fjármálaráðherra og Áslaug Árnadóttir ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins sem sitja í samninganefndinni sjálfri. Auk þess naut samninganefndin aðstoðar lögfræðingsins Eiríks E. Þorlákssonar sem er framkvæmdastjóri Innstæðutryggingasjóðs.

„Ef við hefðum vitað fyrirfram að þau væru skuldbundin samkvæmt samningnum að vinna að framgangi hans þá hefðum við ekki kallað þessa aðila til ráðgjafar eða til þess að veita óháð álit út af samningsgerðinni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×