Innlent

Heimili borga meira í heilbrigðisþjónustu

Af 106 þúsund krónum sem íslensk heimili greiddu að meðaltali fyrir heilbrigðisþjónustu á árinu 2006 fóru 26,6 prósent til lyfjakaupa.Fréttablaðið/Valli
Af 106 þúsund krónum sem íslensk heimili greiddu að meðaltali fyrir heilbrigðisþjónustu á árinu 2006 fóru 26,6 prósent til lyfjakaupa.Fréttablaðið/Valli
Útgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðismála jukust um 29 prósent að raungildi milli áranna 1998 og 2006. Þetta er niðurstaða Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands.

„Verulegur munur er á útgjöldum og útgjaldabyrði vegna heilbrigðisþjónustu eftir hópum,“ segir í grein Rúnars í Læknablaðinu. „Endurskoða þyrfti tryggingavernd í heilbrigðiskerfinu og huga sérstaklega að öryrkjum, fólki utan vinnumarkaðar, lágtekjufólki og ungu fólki,“ bætir hann við.

Rúnar byggir niðurstöður sínar á tveimur könnunum sem gerðar voru á árin 1998 og 2006. Þær voru gerðar með því að senda spurningalista til ákveðins úrtaks af fólki. Í Læknablaðinu segir Rúnar að kostnaður sé önnur algengasta ástæða þess að fullorðnir Íslendingar fresti því að leita til læknis jafnvel þótt þeir telji þörf á aðstoð læknis.

„Það var einkum yngra fólk, einhleypir og fráskildir, og tekjulágt fólk sem frestaði eða felldi niður ferð til læknis af kostnaðarástæðum,“ segir í grein Rúnars.

Af úrtakinu 2006 hafi það heimili sem mest borgaði varið 402 þúsund krónum í heilbrigðisþjónustu en að meðaltali hafi upphæðin verið tæpar 106 þúsund krónur.

Ríflegur fjórðungur allra útgjalda heimilanna vegna heilbrigðismála fer í kaup á lyfjum. Annar fjórðungur rennur til tannlækna. Þá kemur fram hjá Rúnari að hvað einstaka þjónustuþætti varðar jókst kostnaður á þessum tímabili mest vegna sálfræðiþjónustu þar sem aukningin nam 120 prósentum. Á árinu fóru samtals 2,5 prósent af útgjöldunum í sálfræðinga.

Nýtt sex þúsund króna innlagnar­gjald á sjúkrahús sem ákveðið var um síðustu áramót var afturkallað af nýjum heilbrigðisráðherra í febrúar. Þetta segir Rúnar sýna að ákvarðanir um greiðsluþátttöku sjúklinga séu hápólitískar en snerti grundvallarmarkmið um jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu. „Færa má rök fyrir því að gjöld sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu séu komin á varasamt stig með hliðsjón af markmiðinu um jafnt aðgengi,“ segir Rúnar í Læknablaðinu.

gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×