Innlent

Sigmundur Davíð: Forsetinn verður að synja Icesave

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Forseti Íslands á ekki annan kost en að synja lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave staðfestingar. Þetta segir formaður Framsóknarflokks.

Rúmlega 28 þúsund manns hafa nú skráð sig á vefsíðu Indefence hópsins þar sem skorað er á forsetann að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar.

Þegar forsetinn staðfesti Icesave lögin í haust vísaði hann sérstaklega til fyrirvara Alþingis. Stjórnandstaðan telur að í nýja Icesave samkomulaginu sé búið að eyðileggja þessa sömu fyrirvara.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, segir að forsetinn eigi því fáa aðra kosti í stöðunni en að neita staðfesta lögin og vísa málinu til þjóðarinnar.

„Ég hefði talið æskilegt að þetta færi í þjóðaratkvæðagreiðslu af ýmsum ástæðum. Ein af þeim er að losa stjórnina undan þessu vandamáli sem hún virðist ekki geta leyst almenninlega úr. Og þá er ég að vísa til þess að ráðherrar virðast vera búnir að leggja sig sjálfir undir óhóflega í málinu. Hitt er að ef við lítum til þess sem forsetinn lagði fram sem rökstuðning sinn síðast til undirritunar og rauninni skilyrti hann undirritunina í samræmi við skilyrði alþingis og þá held ég hann að eigi varla annan kost en að vísa þessu til þjóðarinnar," segir Sigmundur Davíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×