Lífið

Friðriki hrósað í Variety

Friðrik fær hrós fyrir heimildarmynd í Variety. Fréttablaðið/gva
Friðrik fær hrós fyrir heimildarmynd í Variety. Fréttablaðið/gva
Rétt eftir miðjan mánuðinn birti Variety dóm um heimildarmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Sólskinsdrenginn, eftir John Anderson. Þar er farið lofsamlegum orðum um mynd Friðriks.

Hann lýsir myndinni sem inngangsverki um einhverfu, en það er hin enska útgáfa verksins sem hann fjallar um. Anderson segir Sólskinsdrenginn „einstaklega fallega heimildarmynd og Friðrik rammi atburðarásina eins og um rómantíska leikna mynd væri að ræða og þrátt fyrir flóð upplýsinga og á tíðum þurrar staðreyndir haldi fegurð myndarinnar athygli áhorfenda“. Hann hrósar sérstaklega framlagi tökumannsins en Jón Karl Helgason, sem hefur verið viðloðandi flestar heimildarmyndir Friðriks, er nú ábyrgur fyrir tökunni.

Hann ræðir síðan efnisþætti myndarinnar og tildrög hennar, gerir almennum lesendum Variety nokkra grein fyrir stöðu einhverfra og tíðni þessa sérkennilega fyrirbæris. Er umfjöllun hans í heild sinni afar jákvæð en dómurinn birtist í kjölfar sýninga á myndinni á kvikmyndahátíðinni í Toronto.

Fyrirhugað er að sýna enska gerð myndarinnar eftir helgi í Háskólabíói og tengist það líkega þeim mörgu norrænu gestum og öðrum sem komnir eru víða að á Nordisk Panorama sem hér verður haldin í næstu viku. -pbb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.