Innlent

Tólf ára er áhuginn kviknaði

líkan að gervitaug Kári Már tók á móti verðlaunum í Landskeppni ungra vísindamanna í gær.  Fréttablaðið/Stefán
líkan að gervitaug Kári Már tók á móti verðlaunum í Landskeppni ungra vísindamanna í gær. Fréttablaðið/Stefán

„Ég er mjög ánægður með þennan árangur. Þetta er alveg frábært,“ segir Kári Már Reynisson, sautján ára nemandi við Menntaskólann Hraðbraut. Kári er höfundur verkefnisins „Líkan að gervitaug“ sem bar sigur úr býtum í Landskeppni ungra vísindamanna sem fram fór við Háskóla Íslands á dögunum. Verðlaunaafhending fór fram í Háskólanum í gær.

Auk verðlaunafjár og -skjals verður Kári fulltrúi Íslands í Evrópukeppni ungra vísindamanna í París í september. Þar keppir Kári við unga vísindamenn frá fjörutíu löndum í Evrópu, Ameríku og Asíu. „Ég á jafn góða möguleika á sigri þar og allir aðrir,“ segir Kári.

Kári var aðeins tólf ára gamall þegar áhuginn á byggingu gervitaugar kviknaði. „Ég var mikið að garfa í þessu sem barn og taugafræðin kveikti sérstaklega í mér. Ég uppgötvaði að við höfum engan búnað til að hjálpa þeim sem verða fyrir alvarlegum taugaskemmdum. Og svo hefur þetta þróast áfram hjá mér.“

Kári er að ljúka stúdentsprófi við Menntaskólann Hraðbraut og stefnir á nám í Háskóla Íslands í haust. „Ég gæti farið í líffræði eða lífefnafræði eða jafnvel verkfræði. Það er í raun óráðið hvað ég geri,“ segir vísindamaðurinn ungi að lokum.- kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×