Innlent

Kaupendur fasteigna geta setið eftir með milljónatjón

Haukur Örn Birgisson segir að kaupendur fasteigna geti setið eftir án bóta, fari verktakinn í gjaldþrot.
Haukur Örn Birgisson segir að kaupendur fasteigna geti setið eftir án bóta, fari verktakinn í gjaldþrot.

Mögulegt er að kaupendur nýrra fasteigna sitji eftir með tjón sem nemur hundruðum þúsunda eða jafnvel milljónum króna fari byggingarfyrirtæki á hausinn. Þetta segir Haukur Örn Birgisson, stundakennari í lögfræði við viðskiptadeild HÍ og lögmaður hjá ERGO lögmönnum.

Hann bendir á að meðan fasteignabólan stóð sem hæst hafi smærri byggingarverktakar verið að byggja hús og selt þau. Í mörgum tilfellum hafi þessi verktakafélög verið byggð upp af litlu eigin fé og eignir þeirra verið litlar. „Á tímabili voru fasteignir að seljast á mjög háu verði. Þá virðist vera sem menn hafi í sumum tilfellum verið að flýta sér svolítið í verkum sínum," segir Haukur. Hann segir að menn hafi þá verið að byggja fyrir lítinn kostnað og selt á háu verði. Markaðurinn virðist bara hafa verið þannig að ekki hafi verið vandað nógu vel til verka í sumum tilvikum.

„Nú er í sumum tilfellum farið að gæta galla, til dæmis lekaskemmda, í húsum sem byggð voru síðasta sumar. Fólk er farið að verða vart við þessa galla og farið að beina skaðabótakröfum að verktökunum eða seljendum húsanna, sem eru einn og sami aðilinn. En nú getur sá aðili verið orðinn eignarlaus," segir Haukur.

Hann segir því að þó að fólk sé með skemmd hús og réttmæta skaðabótakröfu í höndunum sem geti numið milljónum króna séu úrræðin fá ef seljandinn hefur verið ótraustur. „Þannig að kaupandinn á skaðabótakröfu sem getur numið milljónum króna. Hann á þá kröfu á seljanda sem annað hvort er eignalaus eða jafnvel orðinn gjaldþrota. Þannig að þó að fólkið eigi skýlausa skaðabótakröfu vegna fasteignagalla þá getur verið tilgangslaust að sækja kröfuna með dómi," segir Haukur Örn.

Haukur Örn segir þó að í sumum tilfellum geti byggingarstjóri fasteignarinnar verið ábyrgur. Byggingarstjórar séu skyldaðir til að vera með ábyrgðartryggingu og í sumum tilfellum geti fasteignaeigendur þá átt bótakröfu sem tryggingafélag viðkomandi byggingastjóra þarf að greiða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×