Innlent

Kanna stöðu Ingibjargar - þingmenn vilja að hún hætti

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Nánir samstarfsmenn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, kanna nú stöðu hennar innan flokksins. Þingmenn eru meðal þeirra sem telja eðlilegt að hún stígi til hliðar.

Óvíst er hvort Ingibjörg sækist eftir endurkjöri sem formaður eða gefi kost á sér til áframhaldandi þingmennsku. Meðal þeirra sem kannað hafa hug lykilfólks innan Samfylkingarinnar til Ingibjargar er Skúli Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins og náin samverkamaður hennar.

Rík krafa um ábyrgð og endurnýjun

Innan Samfylkingarinnar fer fram umræða hvort ekki sé heppilegt að Ingibjörg stígi til hliðar. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þingmenn í hópi þeirra. Samfylkingin hafi setið í ríkisstjórn þegar bankakerfið hrundi og krafan um ábyrgð og endurnýjun sé rík í samfélaginu.

Í kjölfar yfirlýsinga Jóns Baldvins Hannibalssonar um að Ingibjörg ætti að víkja sem formaður sagðist hún ekki hafa tekið ákvörðun um að hætta.

Eins og kunnugt er tók Ingibjörg ekki sæti í ríkisstjórn Samfylkingar og VG en hún hefur verið í fríi síðustu þrjár vikur til að jafna sig eftir veikindi undanfarinna mánaða.

Sterk staða Jóhönnu

Staða Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, þykir afar sterk og er vilji til þess innan Samfylkingarinnar að hún taki við sem formaður. Jóhanna njóti traust langt út fyrir raðar flokksins og auk þess hafi hún verið vinsælasti ráðherra landsins undanfarin ár.

Tíðinda að vænta

Fram kom í tilkynningu frá Samfylkingunni í gær að Ingibjörg hyggst kynna framtíðaráform sín í stjórnmálum síðar í vikunni.

Ingibjörg var kjörin formaður Samfylkingarinnar vorið 2005 þegar hún felldi Össur Skarphéðinsson úr stóli formanns.


Tengdar fréttir

Ingibjörg ákveður sig í vikunni

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, mun síðar í vikunni greina frá áformum sínum um eigin aðkomu að íslenskum stjórnmálum í nánustu framtíð. Ingibjörg hefur verið í leyfi síðustu þrjár vikur til að jafna sig eftir veikindi undanfarinna mánaða. Óvíst hefur verið hvort að hún hafi hug á að sækjast eftir endurkjöri sem formaður Samfylkingarinnar og sem þingmaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×