„Hann mætti ekki en ég bind vonir við að hann komi í desember. Hann var líka svo stuttan tíma hérna," segir Friðrik Weisshappel, eigandi Laundromat í Kaupmannahöfn. Hann tók sig til, keypti heilsíðuauglýsingu í danska stórblaðinu Politiken og bauð Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, í hamborgara.
Til þess að boðskortið færi nú örugglega ekki framhjá Obama voru auglýsingaspjöld hengd upp um alla borg en allt kom fyrir ekki, Obama hafði ekki tíma til að koma með konu sinni og fá sér hamborgara. Obama kom til Danmerkur í gær til að leggja sitt á vogarskálarnar í baráttunni um Ólympíuleikana 2016 en heimaborg hans, Chicago, var ein þeirra sem kom til greina.Obama mátti sín lítils því Rio de Janeiro var valin. Friðrik segir Kaupmannahöfn hafa farið á annan endann í bókstaflegum skilningi, götum hafi verið lokað, flugvöllum líka og bein útsending var frá öllum fimm tímunum sem Obama dvaldist í Kaupmannahöfn á stærstu sjónvarpsstöðvum landsins.
Friðrik segist hafa fengið gríðarlega góð viðbrögð við þessu uppátæki sínu en fjallað hefur verið um boðskortið á nokkrum erlendum vefsíðum sem og í öðrum dönskum fjölmiðlum. Athafnamaðurinn hyggst þó ekki ætla að bjóða upp á Barack-borgara í kjölfarið. „Nei, mér finnst það alltof auglýsingalegt, það er líka búið að gera það einhvers staðar." - fgg