Innlent

Nýjum aðilum veittur forkaupsréttur á 1998

Brynjar Níelsson, lögmaður Þjóðhags.
Brynjar Níelsson, lögmaður Þjóðhags. Mynd/GVA
Verið er að selja nýjum aðilum 1998 móðurfélag Haga og þeim veittur forkaupsréttur segir lögmaður Þjóðarhags. Hann segist hafa áhyggjur af því að bankarnir fari á hliðina á ný með svona vinnubrögðum.

Arion banki sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem staðfest var að bankinn hefði móttekið tilboð frá Jóhannesi Jónssyni kaupmanni, erlendum fjárfestum og stjórnendum Haga um fjárhagslega endurskipulagningu 1998 ehf., móðurfélags Haga. Brynjar Níelsson, lögmaður Þjóðhags, gagnrýnir þetta harðlega.

„Þessir erlendu fjárfestar hafa ekki verið eigendur. Það er ekkert verið að fara í endurskipulagningu með skuldbreytingum og lengingu á lánum," segir Brynjar.

„Þarna er bara verið að selja nýjum mönnum félagið. Það er verið að veita ákveðnum mönnum forkaupsrétt. Það er ekki hugsunin hvorki með verklagsreglum bankans eða hugsunin með þessum nýju bönkum sem ætla að stunda heiðarleika og gagnsæi."

Brynjar telur að þetta sé hluti af samkomulagi sem var gert þegar bankinn tók 1998 yfir. „Mér finnst það líklegt."

Brynjar segir málið vekja tortryggni hjá almenningi. Þögn ráðamanna sé heldur ekki til að slá á þá tortryggni.

„Þetta er staðan. Ég hef ekki miklar áhyggjur af mínum umbjóðendum. Ég hef miklu meiri áhyggjur af þessum banka og hvort þessir nýju bankar muni nokkurn tíma rísa upp og hvort þeir fari ekki bara á hliðina með þessum vinnubrögðum," segir Brynjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×