Lífið

Krummi kominn í poppið

Krummi Vinnur að fyrstu sólóplötu sinni og prófar sig áfram í danspoppi með vini sínum.
Krummi Vinnur að fyrstu sólóplötu sinni og prófar sig áfram í danspoppi með vini sínum.

Krummi Björgvinsson er staddur í Atlanta þar sem hann vinnur að sólóplötu. Auk þess hefur rokkarinn verið að fikra sig út í danspopptónlist.

„Mig langaði að komast burt frá Íslandi í smá tíma til að fá frið og innblástur. Ég á nokkra vini hérna í Atlanta sem ég kom til að hitta og slaka á með. Á meðan ég er hér ætla ég að búa til demo úr lögum sem ég er búinn að vera að semja," segir Krummi Björgvinsson sem nú er staddur í Atlanta í Bandaríkjunum.

Undanfarið hefur hann verið að semja tónlist á kassagítar sem hann tekur upp á lítið upptökutæki. „Þessi plata verður mjög einföld í sniði. En ég veit ekki hvernig útkoman verður eða hvort hún mun koma út á næstunni."

Aðspurður segir Krummi að hljómsveitirnar Mínus og Esja séu enn starfandi þrátt fyrir að meðlimir þeirra séu að vinna að öðrum verkefnum. Hann segir að ný plata með Esju sé væntanleg á næsta ári og að Mínusmenn séu að huga að tónleikaferðalagi.

Auk sólóverkefnisins hefur Krummi verið að semja popptónlist ásamt Halldóri, hljómborðsleikara Esju. „Ég hef verið að fikta svolítið við danspopptónlist með Dóra, félaga mínum. Mér finnst frábært að vinna með honum og þetta verkefni mun vonandi gera eitthvað frábært í náinni framtíð," segir Krummi sem virðist ekki sitja auðum höndum þessa dagana.

Auk þess að semja nýja tónlist fyrir væntanlega sólóplötu hefur hann tekið að sér að fara með hlutverk í nýrri kvikmynd, en tökur á henni hefjast á nýju ári.

„Já, ég mun leika í bíómynd á næsta ári, svo er ég að fara að spila á Airwaves, taka upp eins mikið af tónlist og ég mögulega get og er með eitt níðþungt rokkband í burðarliðnum. Það band mun skarta nokkrum stærstu þungarokkurum Íslands. Svo ætla ég bara að njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum og láta mér líða vel."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.