Lífið

Kokkarnir vilja styrk frá Seðlabanka

Jólasveinaaðgerðin
Úlfar og Tómas ætla að klæða sig upp sem jólasveinar á annan í aðventu og gefa börnunum bæði kerti og spil. 
Fréttablaðið/GVA
Jólasveinaaðgerðin Úlfar og Tómas ætla að klæða sig upp sem jólasveinar á annan í aðventu og gefa börnunum bæði kerti og spil. Fréttablaðið/GVA

„Við erum búnir að leggja inn skriflega beiðni um styrk upp á 300 þúsund krónur fyrir kaupum á kertum frá Sólheimum í Grímsnesi. Við höfum fengið staðfestingu á að þeir hafi móttekið bréfið en þetta virðist eitthvað standa í þeim,“ segir Úlfar Eysteinsson, matreiðslumeistari á Þremur Frökkum.

Fréttablaðið hefur að undanförnu fylgst með Úlfari og félaga hans, Tómasi Tómassyni á Hamborgarabúllunni, og mótmælum þeirra við háum stýrivöxtum Seðlabankans. Þeir ætla ekki að raka sig fyrr en vextirnir eru komnir niður fyrir tíu prósent en þetta eru vafalítið ein friðsælustu mótmæli sem sögur fara af.

Nú er hins vegar tími aðgerða runninn upp og mótmælabræðurnir ætla að klæða sig upp í jólasveinabúning, keyra um Reykjavík á hestvagni og gefa börnum borgarinnar kerti og spil. Úlfar upplýsir að þeir séu þegar komnir með hestvagninn, hestinn sem á að draga hann og jólasveinabúningana.

„Þá erum við búnir að fá þúsund spilastokka frá Flugleiðum en okkur vantar styrkinn fyrir kertunum. Vonandi kemur hann frá Seðlabankanum en annars förum við bara einhverja aðra leið,“ útskýrir Úlfar en kokkarnir ætla meðal annars að heimsækja Barnaspítala Hringsins.

Næsti stýrivaxtafundur Seðlabankans verður 10. desember ef marka má heimasíðu bankans en Úlfar er ekki bjartsýnn á að þeir geti rakað af sér skeggið. Jafnvel þótt vextir verði lækkaðir niður fyrir tíu prósentin. „Nei, við ætlum að leika jólasveina á jólaballi Flugleiða í staðinn fyrir spilastokkana og mér skilst að það sé ekki fyrr en milli jóla og nýárs.“ - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.