Sport

Ólafur Kristjánsson: Sáttur með stigið eftir að lenda undir

Ómar Þorgeirsson skrifar
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. Mynd/

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með viðsnúninginn hjá sínum mönnum gegn Fram í Laugardalnum í kvöld. Blikarnir fundu sig illa í fyrri hálfleik og lentu svo marki undir í seinni hálfleik en náðu að klóra sig til baka inn í leikinn og tryggja sér jafntefli.

„Ég er sáttur með stigið eftir að hafa lent undir gegn Fram. Við erum búnir að tapa niður forystu í síðustu leikjum þannig að þetta var betra. Mér fannst við hins vegar í fyrsta lagi vera að gera allt of mikið af sendingarfeilum í fyrri hálfleik og við vorum alltof passívir í sóknaraðgerðum okkar. Við vildum laga það í seinni hálfleik en það tókst satt best að segja ekki alveg nógu vel. Sendingarnar voru jú örlítið skárri og hreyfingin einnig en alls ekki nóg til að sprengja Framarana upp. En eins og ég segi þá er ég sáttur með stigið eins og þetta spilaðist," segir Ólafur í leikslok í kvöld.

Við tekur langt frí frá leikjum hjá Blikunum, sem og öðrum liðum deildarinnar, en Ólafur ætlar að nýta tímann til þess að vinna í ýmsum málum.

"Það verður engin hvíld. Nú verðum við að vinna í okkar málum til að verða klárir í slaginn að nýju í næsta leik um miðjan júní. Þetta er annars kærkomið að fá þennan tíma þar sem það má sjá á leik liðanna í deildinni að þetta er búið að vera svakalegt prógram. Sex leikir á þremur vikum er náttúrulega alveg út í hött ef ég á að segja eins og er," segir Ólafur að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×