Innlent

Stjórnmálamaðurinn þvældist fyrir seðlabankastjóranum

Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur.
Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur.
Davíð Oddsson seðlabankastjóri færði í Kastljósviðtali í gærkvöldi bestu rök sem hingað til hafa komið fram um hvers vegna stjórnmálamaður á ekki að vera seðlabankastjóri, segir Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur. Ljóst sé að ríkisstjórnin hafi ekki tekið mark á aðvörunum Davíðs, þar sem hún hafi verið að hlýða á málflutning stjórnmálamannsins, ekki seðlabankastjórans Davíðs. Þá segir hann Davíð hafa gefið arftaka sínum Geir Haarde falleinkunn.

Davíð Oddsson var í ítarlegu viðtali við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi í gærkvöldi. Davíð fór vítt um sviðið og kvaðst hafa ítrekað varað fyrrverandi ríkisstjórn við því að bankakerfið gæti hrunið.

,,Það  er greinilega alveg ljóst að ríkisstjórnin og þar á meðal forsætisráðherra, og hans samflokksmenn í ríkisstjórninni, hafi ekki tekið mikið mark á þessum varnaðarorðum. Ég hef það á tilfinningunni að ríkisstjórnin hafi þarna verið að hlusta á stjórnmálamanninn Davíð Oddsson en ekki seðlabankastjórann Davíð Oddsson."

Spurður hvort að stjórnmálamenn ættu ekki að hafa hlustað á viðvaranir Davíðs þrátt fyrir fortíð hans í stjórnmálum telur Einar að fréttamenn þurfi að ganga á ráðherra seinustu ríkisstjórnarinnar og fá atburðarásina staðfesta.

Þess má geta að fréttastofa hefur í morgun reynt ítrekað að ná í Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, en auk þess Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformann Sjálfstæðisflokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingar og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×