Innlent

Segir skilanefndarfólk verða voldugustu menn landsins

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Eygló Harðardóttir í þinginu.
Eygló Harðardóttir í þinginu. Mynd/GVA
„Þetta verða voldugustu menn Íslands," segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknar, um nefndarmenn skilanefnda gömlu bankanna. Hún gagnrýnir ýmislegt við samkomulag stjórnvalda við skilanefndir bankanna sem kynnt var á blaðamannafundi í morgun, en Eygló var viðstödd fundinn og bar upp spurningar ásamt fjölmiðlum.

Meðal annars segir hún að ef skilanefndir Glitnis og Kaupþings fari með hlut þrotabúsins í nýju bönkunum verði skilanefndirnar eins og ríki í ríkinu. Þannig jánkar Eygló því að mikil völd safnist á mjög fárra hendur.

Þá gagnrýnir hún einnig að ekkert í löggjöfinni tryggi að eigendur bankanna kunni að reka banka. Til dæmis sé ekkert í samkomulaginu sem kemur í veg fyrir að fyrrum eigendur bankanna geti eignast þá upp á nýtt.

En telur hún líklegt að þeir muni yfir höfuð sækjast eftir því?

„Það er allavega ekkert sem kemur í veg fyrir það. Það ætti kannski að vera einhver trygging fyrir því að þeir sem eiga bankanna séu aðilar sem við viljum sem eigendur."

Þess má þó geta að í fréttatilkynningu sem fjármálaráðuneytið sendi út í morgun kemur fram að vonir standi til að þeir sem eignist bankana og reki þá á endanum búi yfir nytsamlegri þekkingu á bankarekstri.

Þá segir Eygló þetta samkomulag setja ýmsa vinnu í þinginu í uppnám.

„Hvað verður um bankasýsluna, eignaumsýslufélagið, lagaumhverfið sem við höfum undirbúið að breyta?"

Eygló áréttar að lokum að samkomulagið sem kynnt var í morgun nái aðeins til skilanefndanna - enn eigi eftir að ná samkomulagi við kröfuhafana sjálfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×