Innlent

49 manns með þingsályktunartillögu

Anna Pála Sverrisdóttir, til hægri, er ánægð með samstöðu þingsins. Henni á hægri hönd stendur Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Fréttablaðið / anton
Anna Pála Sverrisdóttir, til hægri, er ánægð með samstöðu þingsins. Henni á hægri hönd stendur Ragnheiður Elín Árnadóttir. Fréttablaðið / anton
Alþingi Þingsályktunartillaga um skipun starfshóps um ofbeldi maka gegn konum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins liggur nú fyrir Alþingi.

Athygli vekur að tillöguna flytja 49 þingmenn úr öllum flokkum. Ráðherrum var ekki boðið að vera með vegna þingræðissjónarmiða og fyrir utan þá vantar einungis fjóra þingmenn Sjálfstæðisflokks á tillöguna.

Anna Pála Sverrisdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Hún segir tilefnið vera nýlega skýrslu Kvennaathvarfsins, sem sýni að konur sem háðar séu mökum sínum um landvist séu í afar viðkvæmri stöðu og láti jafnvel ofbeldi yfir sig ganga til að þurfa ekki að hverfa úr landinu.

„Þetta er að sjálfsögðu ekki stór hópur en þeim mun mikilvægara að koma til móts við hann. Þetta voru nánast allir þingmenn sammála um að ganga í hið allra fyrsta,“ segir hún. „Þetta er hugsað sem framlag Alþingis til baráttunnar gegn kynbundnu ofbeldi og mér finnst sérstaklega mikilvægt að Alþingi hafi sýnt að við getum staðið saman um mikilvæg mál.“

Sem áður segir eru fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokks þeir einu fyrir utan ráðherra sem ekki leggja nafn sitt við tillöguna. Það eru Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Pétur H. Blöndal og Ragnheiður Elín Árnadóttir. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×