Lífið

Fyrsti dúett Ragga og Megasar

Afmælistónleikar Ragga Bjarna verða í Laugardalshöll 26. september.
Afmælistónleikar Ragga Bjarna verða í Laugardalshöll 26. september.

Raggi Bjarna kemur fram með Megasi í fyrsta sinn á 75 ára afmælistónleikum sínum í Laugar­dalshöll 26. september. Saman ætla þeir að syngja Megasarlagið Meyfreyjublús sem Raggi Bjarna gerði vinsælt fyrir nokkru.

„Það hefur komið til tals, en aldrei verið tími, að ég myndi syngja inn á Megasarplötur,“ segir Raggi, spurður hvort hann hafi sungið áður með Megasi. „Þetta verður virkilega skemmtilegt. Sumargleðin verður þarna öll og síðan ætlum við að rifja upp KK Sextettinn. Við erum þrír orðnir eftir: ég, Ólafur Gaukur og Guðmundur Steingrímsson. Síðan verður Guðrún Gunnars þarna með okkur,“ segir hann.

Á meðal annarra söngvara sem stíga á svið með Ragga verða Björgvin Halldórsson, Diddú, Laddi, Páll Óskar og Stefán Hilmars­son. Einnig syngur Raggi dúett í fyrsta sinn bæði með Mugison og Ragnheiði Gröndal. Með Mugison syngur hann Nirvana-lagið Smells Like Teen Spirit, sem hann söng einnig með Milljónamæringunum, og með Ragnheiði syngur hann Kenndu mér að kyssa rétt. „Ég verð að fá einhverja unga til að kenna mér það,“ segir Raggi og hlær. Jafnframt ætlar Mugison að syngja dúett með Megasi á tónleikunum og því ljóst að gestirnir munu fá töluvert fyrir sinn snúð. „Þetta verður meiri háttar dæmi,“ segir Raggi og hlakkar mikið til.

Miðasala á tónleikana hefst á fimmtudaginn á Midi.is og eru aðeins 2.500 miðar í boði. Má fastlega búast við því að þeir rjúki út eins og heitar lummur, enda Raggi einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.