Erlent

Raðmorðinginn í Suður-Karólínu skotinn til bana

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Teikning listamanns lögreglunnar í Cherokee-sýslu af manni sem vitni lýstu og sögðust hafa séð nálægt vettvangi eins morðanna. Verulegar líkur þykja á að maðurinn sem lögregla skaut í gær sé raðmorðinginn sem herjað hefur á Gaffney í tíu daga.
Teikning listamanns lögreglunnar í Cherokee-sýslu af manni sem vitni lýstu og sögðust hafa séð nálægt vettvangi eins morðanna. Verulegar líkur þykja á að maðurinn sem lögregla skaut í gær sé raðmorðinginn sem herjað hefur á Gaffney í tíu daga. MYND/Lögreglan í Cherokee-sýslu/CNN

Allar líkur eru taldar á því að maður, sem lögregla í Suður-Karólínu skaut til bana í gær, sé raðmorðinginn sem leikið hefur þar lausum hala síðustu tíu daga.

Rannsókn á skotvopni, sem hinn 41 árs gamli Patrick Tracy Burris var með á sér þegar lögregla skaut hann til bana í gær, kemur heim og saman við það vopn sem beitt var þegar fimm manneskjur voru skotnar til bana í Gaffney í Suður-Karólínu frá 27. júní til loka síðustu viku. Þá passaði lýsing á bíl sem hann ók við bíl sem vitni höfðu séð nálægt vettvangi sumra morðanna.

„Við teljum að morðinginn sé ekki á götum bæjarins lengur," sagði Reggie Lloyd lögreglustjóri í samtali við CNN. Lögreglumenn í bænum Dallas í Suður-Karólínu brugðust við tilkynningu um innbrot í gærmorgun. Þeir fundu Burris á staðnum og þegar hann gerði grein fyrir sér kom í ljós að handtökuskipun hafði verið gefin út til höfuðs honum vegna skilorðsbrots í Norður-Karólínu.

Hann dró upp byssu þegar lögreglumenn hugðust handtaka hann og skaut annan þeirra í fótinn. Þeir skutu hann þá samstundis til bana. Í ljós kom að sakaskrá Burris spannar 25 blaðsíður og er þar að finna nánast alla flóruna, rán, innbrot, fölsun, ofbeldisglæpi og önnur brot í þó nokkrum ríkjum. Menn spyrja sig nú hvers vegna þessi maður hafi fengið reynslulausn úr fangelsi í apríl en hann hafði þá setið inni í átta ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×