Innlent

Ummæli utanríkisráðherra Hollands óskynsamleg

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ummæli utanríkisráðherra Hollands í þarlendum fjölmiðlum um Icesave og Evrópusambandið eru óskynsamleg að mati formanns utanríkismálanefndar Alþingis. Þingmaður Borgarahreyfingarinnar vill að Ísland dragi aðildarumsókn sína til baka þar sem ljóst sé að Evrópusambandið ætli að kúga Íslendinga til að samþykkja Icesave samkomulagið.

Maxime Verhagen, utanríkisráðherra Hollands, hringdi í Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, í gær til að þrýsta á Íslendinga til að fallast á Icesave samkomulagið. Í hollenskum fjölmiðlum er fullyrt að Verhagen hafi beinlínis sagt að Íslendingar verði að samþykkja Icesave til að uppfylla skilyrði um Evrópusambandsaðild.

Össur Skarphéðinsson heldur til Svíþjóðar í dag til fundar með Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar. Munu þeir meðal annars ræða aðildarumsókn Íslands en ríkisstjórnin hefur hingað til vísað því á bug að Evrópusambandsaðild væri háð samþykki Alþingis á Icesave samkomulaginu.

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að ummæli hollenska ráðherrans komi á óvart. „Ég hef sjálfur ekki séð nein né fengið milliliðalaus skilaboð bara sem ég hef heyrt í fjölmiðlum. Og verð að segja það að mér finnst ekki við hæfi að tengja þessi mál með þeim hætti sem fjölmiðlar eru að greina frá að hafi verið gert," segir Árni Þór. Árni segir að vera kunni að málið sé til einhvers innanhalds brúks í hollenskum stjórnmálum og hann hafi enga trú á því að aðrar þjóðir í Evrópusambandinu myndu sætta sig við að þetta yrði gert með þessum hætti.

Birgitta Jónsdóttir, fulltrúi borgarahreyfingarinnar í utanríkismálanefnd, segir augljóst að Evrópusambandið ætli sér að kúga Íslendinga til samþykkja Icesave.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×