Erlent

Óvíst hvort norska stjórnin haldi velli

Jens Stoltenberg nýtur persónulega mikilla vinsælda í Noregi.
Jens Stoltenberg nýtur persónulega mikilla vinsælda í Noregi. Mynd/Anton Brink
Alls er óvíst að ríkisstjórn Jens Stoltenbergs haldi velli í þingkosningunum sem fram fara í Noregi í dag.  Fyrir aðeins nokkrum dögum var allt útlit fyrir að ríkisstjórn Stoltenbergs félli í kosningum til stórþingsins. Hún hefur þó aðeins braggast í nýjustu skoðanakönnunum sem benda til þess að hún fái áttatíu og fimm til áttatíu og níu af 169 þingsætum.

Það veldur ríkisstjórninni sjálfsagt einhverjum áhyggjum að engin ríkisstjórn í Noregi hefur náð endurkjöri síðan árið 1996.

Jens Stoltenberg forsætisráðherra hefur í kosningabaráttu sinni lagt mesta áherslu á atvinnu fyrir alla. Hann nýtur persónulega mikilla vinsælda og skoðanakannanir sýna að hann er sá maður sem Norðmenn vilja helst fá fyrir forsætisráðherrann.

Jens hefur notfært sér það með því að segja að ef þjóðin vilji hann í embættið verði hún að kjósa Verkamannaflokkinn sem hann leiðir.

En það er ekki allt með sóma í landinu. Noregur er eitt auðugasta land í heimi og félagsfræðingar segja að Norðmenn séu orðnir býsna þreyttir á löngum biðlistum á sjúkrahúsum og plássleysi á elliheimilum auk þess sem skólamál þykja ekki í nógu góðu lagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×