Erlent

Zelaya kominn aftur til Hondúras

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Manuel Zelaya.
Manuel Zelaya.

Manuel Zelaya, hinn útlægi forseti Hondúras, hefur snúið til baka til heimalandsins og lokað sig inni í brasilíska sendiráðinu þar.

Zelaya kom til baka til Hondúras í nótt eins og hann hét að hann myndi gera eftir valdaránið í júní þegar herinn hrifsaði völdin í landinu og gerði hann útlægan. Zelaya segist hafa vaðið ár og klifið fjöll til að komast aftur til Hondúras og nú krefjist hann viðræðna við valdaræningjana.

Roberto Micheletti, leiðtogi andstæðinga forsetans, krefst þess að Brasilíumenn framselji Zelaya í hendur valdaræningjanna en utanríkisráðherra Brasilíu, Celso Amorim, svarar fullum hálsi og segir allar hótanir í garð Zelaya vera alvarlegt brot á alþjóðalögum enda sé hann réttkjörinn forseti Hondúras. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur einnig blandað sér í málið og krefst þess að ekki verði brugðist við endurkomu Zelaya með ofbeldi.

Sjónvarpsstöðvar í Hondúras sýna nú myndir af Zelaya þar sem hann kemur út á svalir brasilíska sendiráðsins með kúrekahatt á höfði að vanda og fagnar stuðningsmönnum sínum sem hafa fjölmennt fyrir framan sendiráðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×