Lífið

Megas spilar Millilendingu í kvöld

Megas
Megas
Aðrir tónleikarnir í tónleikaröðinni Manstu ekki eftir mér fara fram á Veitingastaðnum Nasa í kvöld en þá mun sjálfur Megas ásamt Senuþjófunum leika plötu sína Millilending í heild sinni.

Á tónleikaröð þessari koma fram þekktir íslenskir tónlistarmenn og flytja eigin hljómplötur í heild sinni. Það var hljómsveitin Ensími sem reið á vaðið og lék plötuna Kafbátamúsik fyrir troðfullu húsi þann 11.júní síðastliðinn. Tónleikaröðin er samstarfsverkefni Reykjavík Grapevine og Rafskinnu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu vegna tónleikana.

Millilending kom út árið 1975 og er önnur plata Megasar. Á henni er að finna nokkur af þekktustu lögum hans svo sem "Silfurskotturnar hafa sungið fyrir mig", "Ég á mig sjálf (söngurinn hennar Diddu)", "Sennilega það síðasta (sem víkingurinn mælti um og eftir fráfall sitt) og "Ragnheiður biskupsdóttir". Það var hljómsveitin Júdas sem lék með Megas á plötunni en á tónleikunum á Nasa munu það vera Senuþjófarnir sem spila með honum

Millilending var í 38. sæti í kosningu á plötu aldarinnar sem vel valinn hópur sérfræðinga valdi árið 2001 í tengslum við rokksögulega bók Dr. Gunna, Eru ekki allir í stuði. Millilending var í efstu 50 sætunum í valinu um 100 bestu plötur Íslandssögunnar í kosningu sem Tónlist.is stóð fyrir á árinu.

Miðasala á tónleikana er á midi.is og í verslunum Skífunna og er miðaverð aðeins kr.2000. Tónleikarnir hefjast síðan kl. 22 í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.