Innlent

Ólafur krefst afsagnar borgarstjórans

Ólafur Friðrik Magnússon
Ólafur Friðrik Magnússon
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri á að segja af sér vegna fjárframlaga sem hún þáði af Landsbanka Íslands, áður en hún varði hagsmuni eigenda Landsbankans í málefnum Listaháskóla við Laugaveg.

Svo segir Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, sem ætlar að leggja fram tillögu í þessa veru á borgarstjórnarfundi í dag. Hanna Birna hafi verið vanhæf til að gegna skyldu sinni gagnvart borgarbúum, þegar hún fjallaði um Listaháskólann.

Spurður til hvers hann vísi hér, segir Ólafur að Hanna Birna hafi beitt sér „með mjög ákveðnum hætti fyrir byggingu Listaháskóla við Laugaveg, sem gekk þvert á málefnasamning Sjálfstæðisflokks og F-lista um verndun gamallar götumyndar Laugavegarins".

Um fjárframlögin vísar Ólafur í frétt DV um að Hanna Birna muni hafa fengið allt að 800 þúsund krónur frá Landsbankanum haustið 2005. „Og hún hefur neitað að greina frekar frá fjárhagslegum tengslum sínum við eigendur Landsbankans," segir Ólafur.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segir tillögur Ólafs, um að borgarfulltrúar segi af sér eða skili inn heilbrigðisvottorði, ekki nýjar af nálinni.

„Ég líkt og aðrir borgarfulltrúar hef kosið að gera hans pólitík ekki að minni og tel því dylgjur hans um mig og aðra borgarfulltrúa ekki svaraverðar," segir hún.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×