Innlent

Fjörutíu milljónir í samgöngumiðstöð

Þessi mynd úr safni blaðsins er frá árinu 2006 og sýnir hugmynd að samgöngumiðstöð í Reykjavík frá Teiknistofu Halldórs Guðmundssonar.mynd/úr safni
Þessi mynd úr safni blaðsins er frá árinu 2006 og sýnir hugmynd að samgöngumiðstöð í Reykjavík frá Teiknistofu Halldórs Guðmundssonar.mynd/úr safni

Opinbera hlutafélagið Flugstoðir hefur eytt 38 milljónum króna í undirbúning samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll síðan 2007.

Áður en Flugstoðir voru stofnaðar sinnti Flugmálastjórn hlutverki þeirra. Flugmálastjórn varði 815.097 krónum í verkefnið árið 2006, en engu árin 2004 og 2005.

Þá er ótalinn kostnaður sem liggur í vinnu starfsfólks samgönguráðuneytis og starfsfólks Reykjavíkurborgar, en hann mun vera óverulegur. Þó gætu einhverjar milljónir falist í hönnunarvinnu vegna lóðarinnar.

Líkt og heyrst hefur íhugar samgönguráðherra nú annan kost; að endurbyggja núverandi flugstöð og hverfa alveg frá stórri samgöngumiðstöð. Umferðar­miðstöð BSÍ yrði á sínum stað. Formaður skipulagsráðs borgarinnar er þessu ekki afhuga. Þó greiddu allir borgarfulltrúar, fyrir utan Ólaf F. Magnússon, atkvæði gegn því í vikunni að festa flugvöllinn í sessi.

Landssamtök lífeyrissjóða vilja fjármagna hvorn kostinn sem er, flugstöð eða samgöngumiðstöð, og bíða þess að ríki og borg taki ákvörðun. Borgin segist vinna að samgöngumiðstöð þar til erindi berist frá ráðherranum.

Fyrrgreindur kostnaður Flugstoða liggur í vinnu arkitekta, ráðgjöf, þarfagreiningu, gerð reiknilíkana og öðru.

Sigrún Traustadóttir, fjármálastjóri hjá Flugstoðum, segist ekki líta svo á að þetta sé glatað fé, þótt ekkert verði úr samgöngumiðstöðinni. Féð hafi farið í að ígrunda málin vel áður en farið yrði út í stórframkvæmd. Þess má geta að Flugstoðir velta um þremur milljörðum á ári.

Þær upplýsingar fengust í samgönguráðuneytinu að Flugstoðir hefðu borið meginþungann af þróunar­vinnu samgöngumiðstöðvar. Kostnaður ráðuneytisins fælist í tíma starfsfólks og hugmyndavinnu.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingar, hefur bent á að kostnaður vegna lóðarinnar við Hlíðarfót, þar sem samgöngumiðstöðin átti að vera, nemi 450 milljónum á árinu. Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður skipulagsráðs, hefur hafnað beintengingu þess kostnaðar við samgöngumiðstöðina. Kostnaðurinn deilist einnig á Háskólann í Reykjavík og fleiri verkefni.klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×