Innlent

Icesave hækkar um 72 milljarða á tíu dögum

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Mótmæli gegn Icesave samkomulaginu hafa farið fram á Austurvelli undanfarna daga.
Mótmæli gegn Icesave samkomulaginu hafa farið fram á Austurvelli undanfarna daga. Mynd/Vilhelm

Icesave lánið hefur hækkað um rúma sjötíu milljarða króna síðan það var undirritað fyrir tíu dögum. Hryðjuverkalögunum var aflétt af eignum Landsbankans í Bretlandi í dag og milljarðatugir losnuðu þá úr hirslum Seðlabanka Englands. Enn er þó alls óvíst hvenær megi nota þá til að greiða inn á Icesave lánið.

Evran hefur orðið okkur krónueigendum dýrari síðustu daga - og pundið hefur hækkað umtalsvert síðan Icesave samningurinn var undirritaður eina bjarta sumarnótt - föstudagskvöldið fimmta júní. Icesave lánið er annars vegar í pundum og hins vegar í evrum og þegar upphæðirnar eru umreiknaðar í gengið um hádegi í dag er lánið komið upp í 732 milljarða króna. Á tíu dögum hefur Icesave lánið því hækkað úr 660 milljörðum króna um 72 milljarða króna.

Því þrotabú Landsbankans hefur ekki heimild til að ráðstafa fénu fyrr en frestur annarra en innistæðueigenda sem eiga kröfur á bankann - er liðinn og fyrsti kröfuhafafundur hefur verið haldinn. Hann verður ekki haldinn fyrr en 23. nóvember. Auk þess er almennt álitið að aðrir kröfuhafar muni leita réttar síns. Því muni það draga uppgjör þrotabúsins um ófyrirséða framtíð. Örðugt er því að spá fyrir um - hvenær verði hægt að byrja að greiða niður Icesave lánið - og lækka vaxtagreiðslur, sem eru engir smáaurar.

En skoðum þá hvaða vexti Icesave lánið mun bera frá fyrsta janúar þar til fyrsta kröfuhafafundi lýkur - þegar fyrsta smuga gæti opnast fyrir að byrja að greiða inn á höfuðstólinn. Á gengi dagsins eru bara vaxtagreiðslur á þessum ellefu mánuðum röskir 37 milljarðar.

Milljónirnar sem losna út úr Seðlabanka Englands í dag jafngilda um 48,5 milljörðum króna. Og við getum ávaxtað það fé, segja menn? En sú ávöxtun er harla lítil miðað við það sem við greiðum. Sérfræðingar segja ekki óeðlilegt að miða við svokallaða 3ja mánaða libor millibankavexti. Vextir af affrystu upphæðinni frá deginum í dag til 1. des. gætu þannig gefið þrotabúinu um 277 milljónir króna. Munurinn á vöxtunum sem þrotabúið fær - og Icesave lánið tekur á sig eru því rétt tæpar 37 þúsund milljónir króna - og er því vart nema dropi í hafið af vaxtabyrði lánsins fyrstu ellefu mánuðina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×