Innlent

Nauðsynlegt að fjölga hjúkrunarfræðingum

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga telur fjölgun hjúkrunarfræðinga nauðsynlega.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga telur fjölgun hjúkrunarfræðinga nauðsynlega.

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar mikilli fjölgun umsókna um nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Telja hjúkrunarfræðingar að mikilvægt sé að fjölga hjúkrunarfræðingum þar sem fyrirséð er að stórir árgangar hjúkrunarfræðinga munu fara á eftirlaun upp úr 2012.

Því skorar stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á stjórnvöld að gera hjúkrunarfræðideildum H.A. og H.Í. kleift að mæta aukinni eftirspurn og fjölga þeim hjúkrunarfræðinemum sem geta haldið áfram hjúkrunarfræðinámi að afloknum samkeppnisprófum.

„Við teljum að það sé fyrst og fremst skortur á fjármagni sem standi í vegi fyrir því að fjölga nemendum við deildirnar. Að auki hefur verið mikill skortur á verknámsplássum á heilbrigðisstofnunum landsins," segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Samkvæmt Elsu sóttu 123 nemendur um nám við Háskóla Íslands árið 2008 en nú hafa 244 sótt um hjúkrunarfræðinám við H.Í. Fjölgun umsókna nemur því ríflega 98% á milli ára. Þessir 244 nemendur keppa um 120 sæti við hjúkrunarfræðideildina.

Í fyrra sóttu fimmtíu nemendur um hjúkrunarfræðinám við Háskólann á Akureyri en nú hafa 125 nemendur sótt um námið og keppa þeir um 50 sæti. Samanlagt bjóða því báðir háskólarnir upp á 170 sæti í hjúkrunarfræði.

Elsa telur að algjört lágmark útskriftarnemenda á ári sé 175 samanlegt frá báðum háskólunum.

„Persónulega myndi ég vilja sjá 200 nemendur fara í gegnum námið árlega," sagði Elsa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×